Erlent

Obama eykur forskot sitt á Clinton í Iowa

Það stefnir í spennandi forkosningar í ríkinu Iowa á fimmtudag, hinar fyrstu í forvalinu á forsetaefnum flokkanna tveggja í Bandaríkjunum. Nýjustu kannanir sýna að Barak Obama eykur forskot sitt á Hillary Clinton hjá Demókrötum.

Samkvæmt nýjustu könnunum hefur Obama aukið fylgi sitt úr 28% og í 32% meðal Demókrata síðan í nóvember meðan Hillary Clinton hefur staðið í stað með 25% fylgi. Næstur á eftir þeim kemur John Edwards með 24% fylgi.

Forkosnignarnar í Iowa eru ólíkar kosningunum í öðrum ríkjum að því leiti að aðeins flokksbundir demókratar geta kosið í þeim. Og í ljós kemur að Obama á mun meira fylgi að fagna meðal þeirra sem gengið hafa í flokkinn á síðustu vikum og dögum og höfðu áður skráð sig sem óháða kjósendur. Þessir kjósendur eru taldir vilja róttækar breytingar á hinu pólitíska landslagi í Bandaríkjunum með því að velja blökkumann sem forsetaefni sitt.

Hillary Clinton aftur á móti gengur lítið né rekur í að finna meira fylgi en þau 25% sem hún hafði í Iowa er kosnignarbaráttan hófst þar.

Bæði Clinton og Obama hefur gengið mjög vel í að afla fjár til baráttu sinnar. Clinton ræður nú yfir 100 milljón dollara kosningasjóði eða sem nemur rúmum 6 milljörðum króna og kosningasjóður Obama er næstum fimm milljarðar króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×