Erlent

Segir Bhutto ábyrga fyrir eigin dauða

Syrgjendur við plakat af Benazir Bhutto.
Syrgjendur við plakat af Benazir Bhutto. MYND/AFP

Pervez Musharraf forseti Pakistan sagði í viðtali við bandaríska fréttaskýringaþáttinn „60 minutes" að morðið á Benazir Bhutto fyrrverandi forsætisráðherra væri henni sjálfri að kenna. „Hún stóð fyrir utan bílinn, ég tel að þetta sé henni sjálfri að kenna - engum öðrum," sagði fyrrverandi hershöfðinginn í viðtalinu á CBS sjónvarpsstöðinni.

Bhutto var myrt 27. desember í Rawalpindi suður af höfuðborginni Islamabad, þar sem hún stóð í brynvörðum bíl eftir fjöldafund með stuðningsmönnum sínum. Höfuð hennar stóð upp úr bílnum og var óvarið þegar ráðist var til atlögu. Dánarorsök hefur ekki verið staðfest þrátt fyrir að krufning hafi átt sér stað. Sjálfsmorðssprengjumaður sprengdi sig í loft upp nálægt bílnum og myndskeið sýndi byssumann miða byssu að Bhutto.

Musharraf sagði möguleika á því að hún hefði verið skotin og fagnar alþjóðlegri rannsókn. Hann hafnaði því að ríkisstjórn hans hefði ekki gert nóg til að tryggja öryggi Bhutto. Hún hafi lifað af morðtilræði og fengið meiri öryggisgæslu en nokkur annar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×