Erlent

Rólegt á yfirborðinu í Naíróbí, en kraumar undir niðri

Ómar Valdimarsson er búsettur í Naíróbí þar sem ástand er afar ótryggt í kjölfar umdeildra kosninga.
Ómar Valdimarsson er búsettur í Naíróbí þar sem ástand er afar ótryggt í kjölfar umdeildra kosninga.

Ómar Valdimarsson, sendifulltrúi Rauða krossins er búsettur í Nairóbí í Kenýa þar sem nú ríkir afar ótryggt ástand í kjölfar umdeildra forsetakosninga þar sem stjórnvöld hafa verið ásökuð um víðtækt kosningasvindl. Að minnsta kosti 250 hafa fallið í átökum síðustu daga en Ómar, sem vinnur sem forstöðumaður upplýsingadeildar á svæðisskrifstofu Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans fyrir Austur-Afríku, segir að dagurinn í dag sé sá rólegasti frá því kosningarnar fóru fram í síðustu viku.

„Það er nú rólegt á yfirborðinu, sennilega rólegasti dagurinn hér í borg síðan á kjördag," segir Ómar í samtali við Vísi. „En maður finnur fyrir spennu undir niðri. Menn bíða nú eftir miklum útifundi sem Raila Odinga, sá sem bauð sig fram gegn Kibaki forseta, er búinn að boða til á fimmtudaginn kemur. Hann vill fá milljón manns á fundinn og þar geta orðið vandræði," segir Ómar, sem hefur verið búsettur í Kenýa í tæp tvö ár.

Hann segir að það væsi ekki um sig og sína fjölskyldu en öll börn hans nema elsta dóttirin eru í heimsókn yfir hátíðarnar. „Það fer ágætlega um okkur, við búum rétt utan við miðbæinn, en eitt stærsta slömm Afríku blasir við út um stofugluggann hjá okkur. Þar býr um ein milljón manns og strax og Kibaki var svarinn í embætti fóru reykjarbólstrar að stíga upp víðsvegar um hverfið."

Að sögn Ómars er mesta ófremdarástandið í vesturhluta landsins en átökin eru að vissu leyti ættbálkaerjur, þar sem Kibaki forseti er af Kikuyu ættbálkinum sem er meirihluti landsmanna en Odinga tilheyrir Luo ættbálknum og nýtur stuðnings þeirra. „En þetta er ekkert búið, það er greinilegt," segir Ómar. „Odinga er með meirihluta á þinginu og það á eftir að verða erfitt fyrir Kibaki að halda í stjórnartaumana."

Ómar segir ekki bæta úr skák að Bretar og Evrópusambandið hafa gagnrýnt framkvæmd kosninganna harðlega á síðustu dögum og ef satt reynist að kjörsókn í einu kjördæmi hafi verið heil 115 prósent auk þess sem tölur stemmi ekki í átta öðrum kjördæmum þá sé augljóslega pottur brotinn.

Til stóð að Rauði krossinn myndi opna skrifstofu í Nairóbí á morgun en af því verður ekki vegna hins ótrygga ástands. Ómar segir að þeim hafi þótt hyggilegra að bíða og sjá hvort ástandið lagist ekki á næstu dögum. Að sögn hans eru flestir þeirra útlendinga sem starfa hjá Rauða krossinum í landinu heima hjá sér yfir jólin. „Ég er hér með minni konu og þremur af fjórum börnum og síðan er hér einn Norðmaður, en við förum okkur hægt og bíðum þess að öldurnar lægi," segir Ómar Valdimarsson, sendifulltrúi Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Naíróbí í Kenýa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×