Erlent

Þúsundir syrgja nemendur í prestaskóla

Mikil sorg og reiði ríkti meðal þeirra þúsunda sem komu saman við skólann í dag.
Mikil sorg og reiði ríkti meðal þeirra þúsunda sem komu saman við skólann í dag. MYND/AFP

Þúsundir manna hafa safnast saman við Mercas Harav prestaskólann í Jerúsalem þar sem byssumaður drap átta manns og særði níu í gærkvöldi. Mikil sorg ríkti meðal fólksins þegar gyðingaprestur fór með bænir yfir líkum fórnarlambanna í dag.

Byssumaðurinn Ala Abu Dhaim var palestínskur og vann sem bílstjóri nálægt skólanum. Lögregla segir að hann hafi búið í austurhluta borgarinnar. Abu Dhein var handtekinn af Ísraelum fyrir fjórum mánuðum en leystur úr haldi tveimur mánuðum síðar að sögn fjölskyldu hans. Samkvæmt heimildum BBC er nú reynt að finna út hvort hann var meðlimur herskárra samtaka.

Öryggi var öflugt á landamærastöðum milli Ísrael og Vesturbakkans í kjölfar árásarinnar, sérstaklega í nágrenni Jerúsalem.

Mahmoud Abbas forseti Palestínu sem á í friðarviðræðum við Ísraela fordæmdi árásina. Í morgun hvöttu nokkrir ísraelskir þingmenn ríkisstjórnina að hætta viðræðunum.

Hamas samtökin lofuðu árásina í yfirlýsingu en lýstu ekki yfir ábyrgð á henni.

Blóð á trúarbók í skólanum eftir árásina í gær.

Samkvæmt frásögn sjónarvotta réðist byssumaðurinn inn á bókasafn skólans og hóf handahófskennda skotárás á nemendur sem sátu þar að lestri. Um tíu mínútur liðu þar til öryggisvörðum tókst að skjóta hann til bana. Þá lágu átta nemendur á aldrinum 15 til 16 ára í valnum og níu aðrir særðust sumir mjög alvarlega.

Mikil fagnaðarlæti brutust út á Gaza svæðinu er fregnir af árásinni bárust þangað.

Ísraelsmenn segja að atburðurinn muni ekki draga úr aðgerðum þeirra á Gaza-svæðinu.

Margar þjóðir hafa fordæmt atburðinn og kalla hann ófyrirgefanlegt hryðjuverk. Boðað var til fundar um málið í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og lögð fram tillaga um að fordæma árásina. Hún fékkst þó ekki samþykkt þar sem fulltrúi Líbýu í ráðinu og fleiri þjóðir vildu að í tillögunni yrðu árásir Ísraelsmanna á Gaza svæðið einnig fordæmdar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×