Erlent

Vasamaðurinn í fjögurra vikna gæsluvarðhald

Svo lítur maðurinn út samkvæmt teikningu norsku lögreglunnar.
Svo lítur maðurinn út samkvæmt teikningu norsku lögreglunnar.

Dómstóll í Noregi úrskurðaði í dag Vasamanninn svokallaða í fjögurra vikna gæsluvarðhald á meðan rannsókn á máli hans stendur yfir.

Maðurinn var gripinn fyrir helgi en hann er grunaður um að hafa brotið gegn á fjórða hundrað drengja. Það gerði hann með því að láta þá snerta kynfæri sín í gegnum gat á vasanum á buxum hans.

Maðurinn, sem er 55 ára og sagður vellauðugur, kom fyrir dómara í dag en neitaði að tjá sig nokkuð um málið. Hið sama hefur hann gert við lögreglu.

Maðurinn var handtekinn í Björgvin eftir að rannsókn á DNA-sýni hafði leitt lögreglu á slóð hans. Lögregla hyggst aftur taka sýni úr honum til þess að staðfesta grun sinn. Lögregla segir ljóst að rannsókn málsins muni taka langan tíma enda hefur fjöldi fólks haft samband með ábendingar í málinu eftir að maðurinn var handtekinn. 15-20 lögreglumenn vinna að málinu eftir því sem segir á vef Verdens Gang.

Lögmaður mannsins, sem valdið hefur miklu uppnámi í Noregi með yfirlýsingum sínum um að fórnarlömb hans hafi ekki skaðast mikið, sakaði lögregluna í dag um að vera í ímyndarherferð. Lögregla hefði í raun dæmt skjólstæðing hans fyrir fram og hann hefði aldrei kynnst öðru eins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×