Erlent

Leita enn líka við gamalt upptökuheimili á Jersey

Lögregla á Ermasundseyjunni Jersey grefur nú upp kjallara upptökuheimilis eftir að leitarhundar gáfu til kynna að þar kynnu að leynast líkamsleifar barna. Grunur er um stórfelldar misþyrmingar barna árum saman á heimilinu.

Líkamsleifar eins barns hafa þegar fundist við upptökuheimilið og vitnisburður fyrrverandi heimilismanna um grófar líkamsmeiðingar og kynferðislegt ofbeldi, árum og jafnvel áratugum saman, hafa valdið uppnámi á Bretlandseyjum.

Hegðun sérþjálfaðra leitarhunda í kringum kjallara upptökuheimilisins gerði það að verkum að yfirvöld hófu í gær að rannsaka svæðið en fyllt hefur verið upp í kjallarann. Unnið er að því að grafa hann upp og í kjölfarið fann lögreglan annað herbergi í kjallaranum sem einnig hefur verið fyllt upp í.

Fjörutíu manns sem unnið hafa á upptökuheimilinu í gegnum tíðina sæta nú yfirheyrslum og yfir 160 manns sem dvöldu á heimilinu hafa gefið vitnisburð um hryllilega meðferð á heimilinu. Yfirvöld segja unnið markvisst að uppgreftrinum en vanda þurfi til verksins og ekkert sé hægt að segja til um hvenær ljóst verður hvort fleiri líkamsleifar finnist á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×