Erlent

Pútín ríkasti maður Evrópu?

Vladímír Pútín.
Vladímír Pútín.

Talið er líklegt að Vladímír Pútín, forseti Rússlands, verði næsti stjórnarformaður olíurisans Gazprom þegar hann lætur af embætti í mars. Hann er einnig sagður sitja á gífurlegum auðæfum.

Rússneskt viðskiptablað greinir frá því í dag að Pútín verði líklega næsti stjórnarformaður Gazprom. Pútín hefur þegar tilnefnt arftaka sinn á forsetastóli, en það er einmitt núverandi stjórnarformaður Gazprom, Dimitry Medvedev.

Gangi þetta eftir hafa þeir því haft stólaskipti. Þetta hefur ekki fengist staðfest í Kreml en Medvedev hefur þegar lýst því yfir að hann muni hætta sem stjórnarformaður nái hann kjöri sem forseti. Hann hefur hins vegar ekki tilnefnt arftaka sinn eins og Putin hefur gert.

Þá greinir breska blaðið the Guardian frá sögum þess efnis að Pútín hafi sjálfur sankað að sér hundruðum milljarða inn á leynilega bankareikninga í Sviss og Liectenstein. Auðæfin eru þvílík að í raun sé forsetinn ríkasti maður Evrópu. Rússneski stjórnmálafræðingurinn Stanislav Beslov greinir frá þessu í viðtali við blaðið.

Hann segir Pútín eiga stóra hluti í rússneskum olíu- og gasfyrirtækjum og að því sé haldið leyndu með því að setja á stofn eignarhaldsfélög í Sviss og fleiri löndum. Pútín, sem á dögunum var valinn maður ársins af tímaritinu Time, hefur ekki viljað tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×