Erlent

Kasparov: Rússnesk yfirvöld sýndu sitt rétta andlit

Garrí Kasparov, fyrrverandi heimsmeistari í skák og nú leiðtogi stjórnarandstöðuflokks í Rússlandi, sakaði rússnesk stjórnvöld um að brjóta á bak aftur með ólöglegum hætti mótmæli sem stjórnarandstæðingar höfðu boðað til í Moskvu í dag. Þá sagði hann Rússlandsstjórn hafa sýnt sitt rétta andlit með aðgerðunum í dag.

Kasparov var í hópi 170 mótmælenda sem handteknir voru í morgun í mótmælum stjórnandstöðunnar gegn rússneskum yfirvöldum, en þau eru sökuð um að fótumtroða lýðræðið.

Kasparov var dreginn fyrir dómara í dag og ákærður fyrir ólæti á almannafæri með því að taka þátt í mótmælunum. Á tröppunum fyrir utan dómhúsið sagði Kasparov við fjölmiðla að mótmælin væru mikill sigur fyrir stjórnarandstæðinga. Þá sakaði hann lögregluna um að beita mótmælendur harðræði.

Mikill viðbúnaður var hjá lögreglunni í Moskvu í dag vegna mótmælanna enda höfðu yfirvöld í Kreml lýst því yfir að þau væru ólögleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×