Enski boltinn

Baptista er að rotna á Englandi

Julio Baptista er lítið gefinn fyrir rigninguna á Englandi
Julio Baptista er lítið gefinn fyrir rigninguna á Englandi NordicPhotos/GettyImages

Brasilíski landsliðsmaðurinn Julio Baptista hjá Arsenal segir að sér líði ömurlega á Englandi og er tilbúinn að reyna aftur fyrir sér hjá Real Madrid á Spáni. Hann kom sem lánsmaður til Arsenal frá Real í skiptum fyrir Jose Antonio Reyes, en Brasilíumanninum hefur ekki gengið betur að aðlagast enskum siðum og veðurfari frekar en Reyes á sínum tíma.

"Ég gæti hugsanlega haldið áfram hjá Arsenal en í augnablikinu hef ég ekki hugmynd um hvar ég verð í framtíðinni. Ef ég fengi tækifæri til þess í dag - myndi ég hinsvegar tækla tækifæri með Real Madrid á annan hátt en ég gerði fyrst og ég er sterkari og þroskaðari í dag en ég var þá," sagði Baptista og bætti við að hann finndi sig alls ekki á Englandi.

"Knattspyrnan sem spiluð er hérna er oft á tíðum hræðileg og þar eru liðin úr norðurhlutanum sérstaklega slæm - þar sem ég hef talið yfir 30 kýlingar út í loftið frá einum miðverði í leik. Veðrið hérna er líka að drepa mig og maður fær í besta falli einn sólardag á móti 30 regndögum. Konan mín og móðir mín eru hræddar um að sjá sólina ekki aftur og ég er að verða örvæntingarfullur," sagði Brasilíumaðurinn.

Hann segir að enski boltinn sé gjörólíkur því sem hann á að venjast, en segir Arsenal sem betur fer spila bolta sem henti sér betur. "Úrvalsdeildin er mjög erfið fyrir mig. Ég er Brasilíumaður og er vanur því að spila léttari bolta en ef maður hikar á Englandi er maður strax sparkaður niður. Hraðinn er mikill og hér eru hornspyrnur dýrmætari hluti af leiknum en snyrtilegar sendingar. Ég er samt heppinn að vera að spila með Arsenal, því liðið vill spila fallega knattspyrnu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×