Erlent

Miðjuflokkurinn með forystu eftir fyrstu tölur í Finnlandi

Miðjuflokkur Mattis Vahanens, forsætisráðherra Finnlands, hefur forystu þegar fyrstu tölur hafa verið birtar í þingkosningum í Finnlandi en búið er að telja fjórðung atkvæða. Hafði flokkurinn fengið 24,8 prósent atkvæða en samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn, Jafnaðarmannaflokkurinn, er með 22,9 prósent. Íhaldsbandalagið var svo með þriðja mesta fylgi flokka, eða 21,8 prósent.

Kjörstaðir voru opnaðir klukkan sjö í morgun að íslenskum tíma. 4,3 milljónir Finna eru á kjörskrá, um þriðjugur þeirra greiddi atkvæði utan kjörfundar. Búist er við að kjörsókn nú verði meiri en fyrir fjórum árum þegar hún var um sextíu og sjö prósent.

Í kosningabaráttunni var helst tekist á um heilbrigðismál, hag eldri borgara, skattalækanir og atvinnumál. Miðflokki Matti Vanhanens, forsætisráðherra var spáð góðu gengi. Jafnaðarmenn, sem einnig sitja í ríkisstjórn, voru þó að missa fylgi og hægrimenn að bæta við sig.

Óvíst er hvort Vananhen verði áfram forsætisráðherra haldi stjórnarsamstarf Miðflokksins og jafnaðarmanna áfram því Eero Heinaluoma, fjármálaráðherra og leiðtogi jafnaðarmanna, sækir það fast að taka við forsætisráðherraembættinu.

Svo gæti farið að miðflokkurinn leiti til hægrimanna um samstarf vinni þeir jafn mikið á og spáð hefur verið.

Svo gæti einnig farið að lokað yrði alfarið á Vanhanen þrátt fyrir gott gengi ef jafnaðar- og hægrimenn tækju upp samstarf. Það er ekki svo óvenjulegur kostur í finnskum stjórnmálum þar sem flokkarnir hafa áður starfað saman í ríkisstjórn.

Búist er við að endanlega úrslit liggi fyrir seint í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×