Erlent

Fagna 75 ára afmæli Hafnarbrúarinnar í Sydney

Ástralir fagna í dag 75 ára afmæli Hafnarbrúarinnar í Sydney sem er eitt af einkennum borgarinnar. Fjölbreytt dagskrá verður við brúna að þessu tilefni, þar á meðal munu um 200 þúsund manns nýta sér fágætt tækifæri og ganga yfir brúna þar sem hún verður lokuð í dag fyrir bílaumferð.

Brúin var níu ár í byggingu en var opnuð fyrir umferð í mars árið 1932 en alls þurfti 52 þúsund tonn af stáli í hana. Brúin, sem gengið hefur undir nafninu herðatréð, er stærsta stálboga brú í heimi.

Hátíðahöldin hófust með því að blásið var í hið þekkta ástralska frumbyggjahljóðfæri didgeridoo, sem nefnt hefur verið ljóðalurkur á íslensku, en ekki stendur til að halda flugeldasýningu á brúnni eins og oft áður því skipuleggjendur vilja ekki varpa skugga á glæsileika brúarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×