Erlent

Rússar sendu Írönum kjarnorkueldsneyti

MYND/AP

Íranar fengu í gær fyrstu sendingu af kjarnorkueldsneyti frá Rússum til raforkuframleiðslu. Íranar halda samt sjálfir áfram að auðga úran.

Í innsigluðum tunnunum sem Rússar sendu eru áttatíu og tvö tonn af kjarnorkueldsneyti sem dugar fyrir raforkuframleiðslu í kjarnorkuverinu í hafnarborginni Busheher í Suðvestur-Íran í heilt ár. Það er enn í byggingu en framkvæmdir hafa tafist.

Rússar segjast hafa skriflegt loforð frá Írönum um að þeir heiti því að nota eldsneytið bara til raforkuframleiðslu en ekki til þess að smíða kjarnorkuvopn. Ráðamenn í Mosvku segja að með þessu hafi skapast svigrúm fyrir Írana til að hætta auðgun úrans. Þess þurfi ekki lengur til raforkuframleiðslu.

Deilt hefur verið um kjarnorkuáætlun Írana og Vesturveldin haldið því fram að kjarnorkuvopn væru í smíðum en ráðamenn í Teheran að tæknin yrði notuð til raforkuframleiðslu,  það er í friðsamlegum tilgangi.

Íranar staðfestu eftir yfirlýsingar Rússa að eldsneytið hefði borist en ráðamenn í Teheran ætla ekki að hætta auðgun úrans. Samningurinn við Rússa tengdist ekki viðræðum um kjarnorkuáætlunina.

Óttast margir að enn meiri spenna hlaupi í deiluna vegna þessara frétta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×