Erlent

Auglýsingaspjöld Madeleine tekin niður

Kate og Gerry McCann á blaðamannafundi í Evrópuherferðinni við leitina að Madeleine.
Kate og Gerry McCann á blaðamannafundi í Evrópuherferðinni við leitina að Madeleine. MYND/AFP
Auglýsingaspjöld af Madeleine McCann hafa víða verið tekin niður í portúgalska bænum Praia da Luz, þaðan sem stúlkan hvarf 3. maí síðastliðinn. Margir verslunareigendur, veitingamenn og hótelhaldarar í bænum hafa tekið plakötin niður og kirkjan sem foreldrarnir, Kate og Gerry, sóttu til að biðja fyrir dóttur sinni mun einnig hafa tekið auglýsingarnar niður.

Einn verslunareigandi sagði Daily Mail að það væri ekki sinnuleysi eða áhugaleysi íbúa á örlögum stúllkunnar, heldur vildu þeir koma lífi þorpsins í eðlilegt horf. Margir mánuðir væru frá hvarfi Madeleine og málið hefði tekið öll völd í þorpinu.

Aðrir íbúar sögðu blaðinu hins vegar að það væri ekkert gagn í því að hafa auglýsingaspjöld uppi í málum þar sem foreldrarnir sjálfir væru grunaðir.

Clarence Mitchell talsmaður McCann hjónanna sagði fréttavef Sky að íbúar ferðamannabæjarins væru enn að vonast eftir því að stúlkan sneri aftur. Hann sagði Kate og Gerry hugsa með hlýhug til íbúanna og þau væru afar þakklát stuðningi þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×