Erlent

Málverk sem fannst í rusli selt á 60 milljónir kr.

Málverki sem stolið var fyrir 20 árum og fannst síðar í ruslahaug á götu í New York var selt á uppboði í vikunni fyrir eina milljón dollara eða 60 milljónir króna.

Fyrir fjórum árum var Elisabet Gibson á morgungöngu sinni í New York er hún kom auga á málverk í ruslahrúgu á götu í Manhattan. Henni fannst verkið fallegt og ákvað að hirða það. Fyrr í ár sá hún svo mynd af verkinu á vefsíðu sjónvarpsþáttar sem fjallar um fornmuni. Hún ákvað að skila verkinu til réttra eigenda.

Málverið sem hér um ræðir ber nafnið Þrjár persónur og var málað af mexíkanska listamanninum Rufino Tamayo árið 1970. Hjón í Huston í Texas keyptu málverkið á uppboði hjá Sothebys árið 1977 fyrir 55.000 dollara. Verkinu var síðan stolið 10 árum síðar og í framhaldi af því var 15.000 dollara verðlaunum heitið fyrir upplýsingar um hvar verkið væri niðurkomið.

Nú þegar málerkið fór aftur á uppboð fengust 60 milljónir kr. fyrir það. Gibson fær í sinn hlut uipphaflegu verðlaunin fyrir að finna verkið og einnig ákveðin hlut af uppboðsverðinu. Það fylgir sögunni að bandaríska alríkislögreglan er enn að rannsaka þjófnaðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×