Erlent

Daglegt líf lamað í Frakklandi vegna verkfalla

Daglegt líf í Frakklandi er lamað. Mörg þúsund opinberir starfsmenn lögðu niður vinnu í morgun. Skólar eru lokaðir, sjúkrahús veita aðeins lágmarks þjónustu, almenningssamgöngur eru í lamaslessi og flugumferð hefur raskast.

Verkfall starfsmanna almenningssamgöngufyrirtækja hefur staðið í viku. Mótmælt er áformum Nicolas Sarkozys Frakklandsforseta um að skerða lífeyriskjör opinberra starfsmanna og að fækka þeim um tugi þúsunda með því að ráða ekki í stöður sem losna.

Nú hafa aðrir opinberir starfsmenn einnig lagt niður vinnu í sólahring. Skólar eru lokaðir, sjúkrahús veita aðeins lágmarksumönnun og engin dagblöð var að fá hjá blaðasölum í morgun þar sem þau sem voru prentuðu í nótt fóru ekki í dreifingu. Starfsmenn orkufyrirtækja mættu ekki til vinnu en þrátt fyrir það er ekki búist við rafmangsleysi í dag.

Flugumverðastjórar mættu heldur ekki til vinnu og það hefur orðið til að tefja flug eða því aflýst á báðum flugvöllum í París, flugvellinum í Marseille.Þess fyrir utan ætla háskólanemar víða um Frakkland að mótmæla fyrirhuguðri breytingu á fjármögn háskóla landsins. Lögfræðingar ætla einnig að mótmæla ásamt starfsmönnum dómstóla. Þeim líkar illa fyrirhugðu endurskipulagning dómskerfisins en fækka á héraðsdómum.

Sarkozy virðist þó hvergi banginn og hafa ráðamenn keppst við að lýsa því yfir í morgun og síðustu daga að ekki verið vikið frá markaðri stefnu.

Það kann þó að breytast ef verkalýðsfélög samþykki að leggja vinnu niður í einhverja daga til viðbótar. Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakklands, sagði í morgun að verkfall starfsmanna almenningssamgöngufyrirtækja kostaði franska ríkið jafnvirði rúmlega þrjátíu og sex milljóna króna á dag.

Margir Frakkar eru afar andvígir aðgerðum síðustu daga og segja minnihluta Frakka halda öllu landinu í gíslingu.

Kannanir benda til þess að Sarkozy njóti stuðnings meirihluta þjóðarinnar. Það sé mat manna að ákveðnir hópar opinberra starfsmanna eigi ekki að geta farið á eftirlaun um fimmtugt eins og hægt er samkvæmt núgildandi lögum, þjóðin hafi ekki lengur efni á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×