Erlent

Tímarit fordæmt fyrir Madeleine háð

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Kate McCann brotnaði saman í viðtali við spænska sjónvarpsstöð sem tekið var á heimili fjölskyldunnar í Rothley.
Kate McCann brotnaði saman í viðtali við spænska sjónvarpsstöð sem tekið var á heimili fjölskyldunnar í Rothley. MYND/AFP
Kate og Gerry McCann hafa fordæmt "sérlega særandi" grein í þýsku háðtímariti um fjölmiðlafárið í tengslum við hvarf dóttur þeirra. Titanic tímaritið birti heila opnu í formi auglýsingar um ýmsar vörur sem kynntar eru á háðuglegan hátt með mynd af Madeleine.

Hreinsiefni er auglýst með andliti stúlkunnar og sagt tryggja að hægt sé að fjarlægja „öll verksummerki heimafyrir" og með notkuninni sé „enginn möguleiki á að ná DNA sýnum." Vinsæl súpa er kölluð Maddi eftir Madeleine og vinsælt súkkulaði er með mynd af andliti stúlkunnar í stað vanalega barnaandlitsins.

Í auglýsingunni segir að eitt prósent söluhagnaðar renni til Alþjóðalögreglunnar Interpol.

Vanvirðing við Madeleine
Clarence Mitchell talsmaður McCann hjónanna segir auglýsinguna ekki bara sérlega særandi, heldur algjöra vanvirðingu við Madeleine.

Tímaritið fékk ekki leyfi til að nota mynd stúlkunnar og lögmenn McCann hjónanna skoða nú málið.

Haft er eftir Oliver Nagdel ritstjóra Titanic á fréttavef Sky að greinin væri ekki gagnrýni á McCann hjónin. Hún sé auk þess eingöngu ætluð þýskum lesendum. Madeleine hafi orðið þekktasta andlit heimsins og þess vegna rökrétt að nota ímynd hennar til að auglýsa vörur. Hann sagðist ekki leggja í vana sinn að afsaka greinar í blaðinu.

„Við erum ekki að gera grín af barnshvarfinu sjálfu, heldur fjölmiðlum fyrir að gera svona mikið úr málinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×