Erlent

„Ruglaði" barnaníðingurinn talinn Kanadamaður

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Grunaður internet-barnaníðingur sem Interpol hefur leitað að hefur verið nafngreindur sem Kanadamaðurinn Christopher Paul Neil. Alþjóðalögreglan hefur birt nýja mynd af manninum úr öryggismyndavél á flugvelli í Bangkok í Taílandi. Þar er hann með rakað höfuð og gleraugu.

Neil er fæddur árið 1975 og er sagður vera á í Taílandi eftir að hann flúði frá Seoul í Suður-Kóreu þar sem hann hefur unnið sem enskukennari.

Lögreglan telur að Neil sé enn í Taílandi. Hún aflar nú gagna frá nágrannalöndunum þar sem hann framdi ódæðisverk gegn börnum til að hægt sé að handtaka hann. Viðbúnaður er við öll landamæri Taílands vegna málsins.

Alþjóðalögreglan hefur reynt að hafa upp á manninum síðastliðin þrjú ár, eða síðan þýska lögreglan komst á snoðir um 200 ljósmyndir af ódæðunum á internetinu. Á þeim sést maðurinn misnota 12 unga drengi í Víetnam og Kambódíu.

Lögreglunni tókst að afrugla andlit mannsins með tölvutækni.MYND/Interpol

Andlit mannsins var ruglað með tölvutækni á myndunum en Interpol notaði sömu tækni til að afrugla andlitið. Þá kom í ljós hvítur maður með dökkt hár sem farið var að þynnast fremst.

Interpol birt myndina opinberlega og óskaði eftir aðstoð almennings við að finna manninn og fékk meira en 350 ábendingar hvaðanæva úr heiminum. Mynd náðist af hinum grunaða á öryggismyndavél alþjóðaflugvallarins í Bangkok. Þar leit hann út fyrir að hafa elst, var búinn að raka af sér hárið og setja upp gleraugu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×