Erlent

"Ruglaði" barnaníðingurinn í Taílandi

MYND/Interpol

Alþjóðalögreglan Interpol telur sig hafa fundið barnaníðing sem birti myndir á internetinu af sjálfum sér þar sem hann misnotaði ung börn í Kambodíu og Víetnam. Maðurinn er talinn vera breskur enskukennari sem nú er í Taílandi. Hann hafði ruglað andlit sitt, en Interpol beitti sömu aðferð til að afrugla andlit hans.

Hundruð manns brugðust við kalli Interpol og telur lögreglan sig nú hafa fundið gerandann. Fimm mismunandi aðilar frá þremur heimsálfum vísuðu á enskukennarann sem kennir í skóla í Suður-Kóreu samkvæmt heimildum Interpol.

Lögreglan hefur nú upplýsingar um nafn mannsins, þjóðerni, fæðingardag, passanúmer og núverandi- og fyrrverandi vinnustaði.

Mynd af manninum náðist á öryggismyndavél alþjóðaflugvallarins í Bangkok þegar hann flaug frá Seoul til Taílands.

Ronald Noble framkvæmdastjóri Interpol sagði Sky fréttastofunni að Taíland væri nú miðpunktur leitarinnar að manninum. Hann sagði viðbrögð almennings ótrúlega góð og þau hafi leitt til þess að árangur náðist svo skjótt í málinu.

 

Meira en 350 manns höfðu samband við Interpol vegna málsins en óskað er eftir aðstoð almennings við að komast að núverandi samastað mannsins.

Maðurinn sást á 200 myndum misnota 12 drengi frá Víetnam og Kambódíu.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×