Erlent

Réttað yfir hryðjuverkamönnum í Belgíu

MYND/AFP

Réttarhöld yfir sex einstaklingum sem eru sakaðir um hryðjuverkastarfsemi hófust í Brussel í Belgíu í dag. Hópurinn er talinn tengjast sjálfsmorðssprengjuárásum í Írak og er fólkið ennfremur sakað um að hafa notað Belgíu sem þjálfunarmiðstöð fyrir samtök herskárra múslima.

Sexmenningarnir eru einnig sakaðir um að hafa ráðið til sín hina 38 ára gömlu Muriel Degauque sem sprengdi sjálfa sig í loft upp fyrir framan vaktstöð bandaríska hersins í Írak árið 2005. Konan hafði skömmu áður snúist íslamstrúar. Fólkið á yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi.

Á síðasta ári voru 11 manns dæmdir í Belgíu í allt að sjö ára fangelsi fyrir að hryðjuverkastarfsemi. Voru þeir meðal annars taldir tengjast hryðjuverkaárásinni í Madrid árið 2004 og sprengjuárásum í Casablanca. Alls létu um 250 manns lífið í árásunum.

Yfirvöld í Belgíu óttast nú að samtök herskárra múslimar noti landið sem miðstöð fyrir hryðjuverkastarfsemi. Þaðan séu árásir í öðrum löndum skipulagðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×