Erlent

Spenna á landamærum Tyrklands og Íraks

Þórir Guðmundsson skrifar

Condoleeza Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna skoraði á Tyrki í dag að láta ekki verða af fyrirhugaðri árás á kúrdíska skæruliða yfir landamærin við Írak. Þúsundir skærliða á vegum Verkamannaflokks Kúrdistans, eða PKK, hafast við í fjöllunum á landamærum Íraks og Tyrklands.

Á síðustu dögum hafa þeir fellt fimmtán tyrkneska hermenn. Kúrdar eru tuttugu prósent íbúa Tyrklands en hafa átt mjög undir högg að sækja sem þjóðarbrot.

Ein af hetjum Kúrda, ljóðskáldið Mehmed Uzun, var í dag borinn til grafar, en hann dó úr krabbameini. Hans vopn í sjálfstæðisbaráttunni var penninn, en nú beinist athygli tyrkneskra yfirvalda að þeim sem láta sér ekki nægja stílvopnið.

Forseti Tyrklands er búinn að gefa hernum grænt ljós á að gera stórárás á skæruliðana inn fyrir landamæri Íraks. Condoleeza Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna varar við slíkri árás.

En Bandaríkjamenn eru ekki í góðri aðstöðu að hafa áhrif á Tyrki, eftir að Bandaríkjaþing lýsti því yfir að morð á Armenum árið 1915 hefðu verið þjóðarmorð. Tyrkir eru æfareiðir og skoða nú refsiaðgerðir, svo sem að meina Bandaríkjaher aðgang að mikilvægum herflugvelli í Tyrklandi.

Spennan á landamærunum hefur áhrif á olíuverð, sem fór yfir 84 dali á fatið fyrir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×