Erlent

Líklega ekki kosningar fyrr en eftir tvö ár

Forsætisráðherra Breta liggur undir ámæli andstæðinga sinna fyrir að boða ekki til þingkosninga á þessu ári líkt og hann hafði gefið í skyn.

Um þrír mánuðir eru síðan að Gordon Brown tók við embætti forsætisráðherra af Tony Blair. Fyrir fáeinum vikum birtust skoðanakannanir sem sýndu að Brown og flokkur hans Verkamannaflokkurinn nytu mikils stuðnings hefðu verulegt forskot á Íhaldsflokkinn. Stjórnmálaskýrendur töldu þá margir sterkan leik fyrir Brown að boða til kosninga hið fyrsta og gaf Brown sjálfur í skyn að það yrði jafnvel gert á þessu hausti.

Síðast var kosið í Bretlandi í maí 2005. Venjan er sú að boðað er til kosninga í fyrsta lagi þegar þrjú ár eru liðin af kjörtímabili en í síðasta lagi þegar fimm ár eru liðin. Brown þarf því ekki að boða til kosninga fyrr en árið 2010. Hann gæti hins vegar ákveðið að reyna að styrkja stöðu flokksins og boða til kosninga þegar allt bendir að flokkurinn hafi mikinn meðbyr.

Í gær sýndi breska ríkissjónvarpið BBC viðtal við forsætisráðherrann þar sem hann útilokaði kosningar á þessu ári og taldi jafnframt ólíklegt að boðað yrði til þeirra á því næsta.

Brown sagðist enn eiga eftir að sýna þjóðinni hvað hann ætlar sér að gera og að hann vilji vera dæmdur af framtíðarsýn sinni en ekki hæfni sinni til að takast á við erfiðleika. Síðan Brown tók við í júní hafa mætt honum fjölmörg erfið mál svo sem flóð á vesturhluta Englands og gin og klaufaveiki

Nýjustu kannanir sýna að ef boðað yrði til kosninga nú þá myndi Verkamannaflokkurinn jafnvel tapa meirihluta sínum í neðri deild breska þingsins. Andstæðingar Brown hafa gagnrýnt harðlega ákvörðun hans um að bíða með kosningar þar sem þeir sjá nú fram á að fá í fyrsta lagi tækifæri til að komast að eftir tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×