Erlent

Athyglina aftur á leitina að Madeleine

Fjölskylda Madeleine McCann kallaði í dag eftir því að endi yrði bundinn á stjórnlausar vangaveltur um málið og að athygli yrði aftur beint að leit stúlkunnar. Clarence Mitchell talsmaður fjölskyldunnar sagði að vangaveltur um hvort Kate og Gerry McCann hefðu harmað dóttur sína væru eins „fáránlegar og þær væru fjarstæðukenndar."

Hann sagði saklausar útskýringar á öllu því sem beindist gegn foreldrunum. Kate og Gerry tryðu því staðfastlega að Madeleine væri á lífi. Þau myndu halda áfram að vinna með portúgölsku lögreglunni, en þarlend lög leyfðu ekki að þau tjáðu sig nánar um málið.

Mitchell hefur hætt störfum hjá hinu opinbera og gerst talsmaður fjölskyldunnar, en áður vann hann hjá BBC. Hann var sendur á vegum utanríkisþjónustunnar til Portúgal til að tala við McCann hjónin vikurnar eftir hvarf stúlkunnar. Hann segist hafa eytt allt að 14 klukkutímum á dag með fjölskyldunni. Aldrei hafi hann orðið var við neitt sem gæfi honum ástæðu til að gruna þau um aðild að hvarfi hennar.

Kate og Gerry hafa bæði réttarstöðu grunaðs í rannsókn lögreglunnar á hvarfi Madeleine. Þau neita að eiga nokkurn þátt í hvarfi hennar og hafa staðið fyrir herferð í nokkrum löndum fyrir leit að dóttur þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×