Erlent

Bush ætlar að fækka í herliðinu í Írak

George Bush Bandaríkjaforseti mun í vikunni tilkynna um mikla fækkun í bandaríska herliðinu í Írak fyrir mitt næsta ár, að því er starfsmenn hvíta hússins segja. Bush mun tilkynna um fækkunina í sjónvarpsávarpi síðar í vikunni.

Heimildir herma að áætlun forsetans geri ráð fyrir að fækkað verði í liðinu um rúmlega 30 þúsund manns en það er sami fjöldi og ákveðið var að senda til Írak í febrúar. Yfirmaður bandaríska hersins í Írak, George Petreus, kom fyrir þingnefnd bandaríkjaþings í vikunni þar sem farið var yfir stöðu mála í Írak.

Að hans sögn hefur aukinn liðsafli í landinu síðustu mánuði skilað góðum árangri. Hann sagði þó að þrátt fyrir að dregið hafi úr ofbeldi í landinu þá gæti ótímabær fækkun í herliðinu haft skelfilegar afleiðingar. Petreus hefur í vikunni legið undir miklum ámæli frá þingmönnum beggja flokka á þinginu og hafa demókratar meðal annars kallað hann málpípu hvíta hússins sem ekkert mark sé takandi á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×