Enski boltinn

Bierhof ósáttur við Chelsea

AFP

Oliver Bierhof, framkvæmdastjóri þýska landsliðsins í knattspyrnu, er afar ósáttur við forráðamenn Chelsea eftir að þeir meinuðu Michael Ballack að ferðast til heimalandsins til að taka þátt í kynningu á landsliðsbúiningi Þjóðverja fyrir EM.

Þjóðverjar eru margir hverjir gáttaðir á því hvernig Chelsea hefur höndlað mál fyrirliða landsliðsins og skemmst er að minnast viðbragða manna eins og Bierhof við því þegar Ballack var ekki valinn í hóp Chelsea til þáttöku í Meistaradeildinni. Þýska landsliðið fyrirhugar nú að frumsýna búninginn sem Adidas hefur hannað á liðið fyrir EM á næsta ári - en Bierhof og félagar þurfa nú að sýna búninginn án fyrirliðans vegna afskipta forráðamanna Chelsea.

"Svona kemur maður ekki fram við þýska landsliðsmenn, sérlega ekki fyrirliðann sjálfan," sagði Bierhof í dag. "Það er ósanngjarnt að Chelsea skuli koma svona fram við þeirra eigin styrktaraðila (Adidas) og það virðist vera að Chelsea hafi sínar eigin hugmyndir um það hvernig tekið er á svona málum," sagði Bierhof.

Forráðamenn Chelsea mótmæla þessu og segja að leikmaðurinn hafi fengið leyfi til að vera viðstaddur kynninguna, en aðeins eftir að íþróttavöruframleiðandinn sjálfur skarst í leikinn. Ballack er þó kominn aftur til London og því var ákveðið að hætta við að láta hann taka þátt í kynningunni - því menn vildu ekki láta hann fljúga enn eina ferðina til Þýskalands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×