Erlent

Sharif sendur aftur í útlegð

Fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans, Nawas Sharif, hefur verið sendur úr landi. Sharif snéri aftur úr útlegð í morgun og hafði hann lýst því yfir að hann hyggðist leiða baráttuna gegn forseta landsins, Pervez Musharaf í komandi kosningum.

Flugvél hans lenti á flugvellinum í Íslamabad, höfuðborgar Pakistans í morgun og eftir tveggja klukkutíma rekistefnu var Sharif úrskurðaður í gæsluvarðhald, ákærður fyrir spillingu og peningaþvætti. Fjórum tímum síðar var hann síðan kominn á loft í flugvél áleiðis til Saudí Arabíu. Sharif var steypt af stóli af núverandi forseta landsins Perves Musharaf í blóðlausri byltingu árið 1999 og hefur hann verið í útlegð alla tíð síðan. Gríðarmikill viðbúnaður var í höfuðborg landsins vegna komu Sharifs og setti lögregla upp tálma til þess að stuðningsmenn forsætisráðherrans fyrrverandi kæmust ekki til að fagna komu hans.

Hæstiréttur Pakistans úrskurðaði í síðasta mánuði að Sharif væri heimilt að snúa aftur til landsins en stjórnvöld hafa hvatt hann til þess að virða samninginn sem gerður var þegar Sharif var sendur í útlegð en samkvæmt samningnum má hann ekki snúa aftur til Pakistan fyrr en eftir þrjú ár. Sharif neitar því að slíkur samningur hafi verið gerður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×