Innlent

Auglýsti eftir ólygnum og örvhentum veðurfræðingi

Gyða Dögg Sigurðardóttir og Tinna Óskarsdóttir njóta veðurblíðunnar á Egilsstöðum í sumar.
Gyða Dögg Sigurðardóttir og Tinna Óskarsdóttir njóta veðurblíðunnar á Egilsstöðum í sumar. MYND/HH

Í atvinnuauglýsingablaði Morgunblaðsins í dag er auglýst eftir örvhentum og ólygnum veðurfræðingi og honum lofuð tíföld laun. Auglýsandinn, sem er Austfirðingur, segist vera orðinn langþreyttur á því að veðurfræðingar í sjónvarpinu skyggi á austurhluta landsins á veðurkortinu þegar þeir segja veðurfréttir.

„Þetta er nú fyrst og fremst lagt fram í gríni," sagði Valdimar Benediktsson, verktaki, veðuráhugamaður og Austfirðingur. „Við Austfirðingar erum orðnir svolítið þreyttir á því að veðurfræðingar í sjónvarpi skyggi á Austurland þannig að við sjáum ekki þann hluta á veðurkortinu. Ef við fáum hins vegar örvhentan veðurfræðing þá mundi hann skyggja á Vesturland. Svo mætti skipta reglulega um til að gæta jafnræðis."

Þá segir Valdimar að honum finnist veðurfræðingar segja of lítið frá því þegar veður er gott á Austurlandi. „Það er mitt mat að þeir ljúga stundum með þögninni. Ef það er gott veður í Reykjavík þá þykir það frétt og eins ef það er vont veður hér fyrir austan. Eflaust er gott veður svo algengt hér fyrir austan að það þykir ekki fréttnæmt."

Að sögn Valdimars hafa margir hringt síðan auglýsingin birtist í Morgunblaðinu en þó enginn veðurfræðingur.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.