Erlent

Danskur skattasáttmáli í höfn á elleftu stundu

Sighvatur Jónsson skrifar
Thor Pedersen fjármálaráðherra tilkynnir um samkomulagið á sjónvarpsstöðinni TV2
Thor Pedersen fjármálaráðherra tilkynnir um samkomulagið á sjónvarpsstöðinni TV2 MYND/TV2

Danska ríkisstjórnin tilkynnti síðdegis að náðst hefði samkomulag við Danska þjóðarflokkinn um nýjan skattasáttmála, en forsætisráðherra hafði gefið frest til miðnættis í kvöld til lausnar málsins.

Ríkisstjórn Venstre og Íhaldsmanna þurfti að bakka með hugmynd sína um að lækka svokallaðan toppskatt, í þriggja þrepa skattkerfi Danmerkur. Minnihlutastjórnin náði samkomulagi við Danska þjóðarflokkinn um að hækka skattmörk milliskattsins, auk þess sem persónuafsláttur verður hækkaður.

Samkomulagið er talið minnka líkur á þingkosningum í Danmörku, en Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra, hafði óskað eftir því að kosningar yrðu haldnar 25. september næstkomandi. Innanríkisráðuneytið neitaði þeirri beiðni þar sem of stutt yrði milli kosninga og setningar danska þingsins 2. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×