Erlent

Þrír særðust í skotárás í London

Jón Hákon Halldórsson skrifar

Þrír táningar særðust í skotárás í London snemma í gærmorgun. Árásum glæpagengja í borginni virðist ekki ætla að linna.

Árásarmaðurinn skaut á hóp fólks sem stóð fyrir utan heimili þar sem gleðskapur var í gangi, samkvæmt upplýsingum frá bresku lögreglunni. Þrettán ára piltur var skotinn í lærið, átján ára piltur fékk skot í brjóstið og átján ára stúlka var skotin í bakið. Tvö þeirra hafa verið útskrifuð af spítala og búist er við að sá þriðji fari heim fljótlega. Lögreglan rannsakar nú málið en vill ekki segja neitt til um ástæður árásarinnar. Lýst hefur verið eftir vitnum að atburðunum.

Einungis örfáir dagar eru síðan ellefu ára gamall drengur var skotinn til bana í Liverpool þegar hann gekk heim af knattspyrnuæfingu. Að minnsta kosti sautján manns hafa verið skotnir eða stungnir til bana í London á þessu ári. Gordon Brown forsætisráðherra heitir því að harðar verði tekið á ofbeldisverkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×