Erlent

Sjálfsmorðum fjölgar í Bandaríkjaher

MYND/AFP

Að minnsta kosti 99 bandarískir hermenn frömdu sjálfsmorð á síðasta ári og hefur sú tala ekki verið hærri í 26 ár. Samkvæmt nýrri skýrslu tóku um 17 hermenn af hverjum 100 þúsund eigið líf í fyrra en árið 2005 voru þeir rúmlega 12 af hverjum 100 þúsund. 28 af þeim 99 sem frömdu sjálfsmorð í fyrra gerðu það meðan þeir gegndu herþjónustu í Írak eða Afganistan.

Í skýrslum bandaríkjahers kemur fram að ástæður sjálfsvígana megi rekja til sambandsslita, slæms fjárhags og álags vegna vinnu þeirra. Enn er verið að rannsaka tvö dauðsföll frá síðasta ári og reynist þau vera sjálfsvíg fer talan í 101.

Flest sjálfsvíg á meðal bandarískra hermanna áttu sér hins vegar stað árið 1991 þegar Persaflóastríðið var háð. Þá tóku 102 hermenn eigið líf. Þó er tekið fram í skýrslunni að á þeim tíma hafi fleiri gegnt herþjónustu þannig að hlutfallslega er talan fyrir 2006 hærri. Það sem af er þessu ári hafa 44 hermenn framið sjálfsmorð og voru 17 þeirra við störf í Írak eða Afganistan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×