Erlent

Grunaður um að hafa dreift myndbandi sem sýnir aftöku

Rússneskir lögregluþjónar.
Rússneskir lögregluþjónar. MYND/AFP

Rússneska lögreglan handtók í morgun mann sem grunaður er um að hafa dreift myndbandi sem sýnir tvo menn tekna af lífi. Annar þeirra er afhöfðaður en hinn skotinn. Lögreglan hefur ekki viljað staðfesta hvort aftakan í myndbandinu sé raunveruleg.

Myndbandið sýnir tvo menn frá Kákasushéruðum Rússlands tekna af lífi. Rússneskir hægri öfgamenn hafa lýst ábyrgð á verknaðinum en í myndbandinu heilsa böðlarnir að sið þýskra nasista áður en þeir taka mennina af lífi. Mynbandið var upprunalega sett á vefsíðu á Netinu en þeirri síðu hefur nú verið lokað.

Maðurinn sem handtekinn var í morgun er háskólastúdent og að sögn talsmanns rússneska innanríkisráðuneytisins tengist hann hópum hægri öfgamanna í Rússlandi.

Rússneska lögreglan hóf í gær rannsókn á málinu meðal annars til að staðfesta hvort aftakan í myndbandinu væri raunveruleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×