Erlent

Írar drykkfelldir frá alda öðli?

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar

Ást Íra og afkomenda þeirra á göróttum drykkjum kann að liggja í genunum. Að minnsta kosti á hún sér langa sögu. Vísindamenn hafa nú sett fram kenningu um að sérstök tegund rústa á Írlandi, sem fornleifafræðingar hafa hingað til talið vera ævaforn eldstæði, séu í raun fyrstu ölgerðir landsins. 

Fornleifafræðingurinn Billy Quinn lá morgun einn illa haldinn af timburmönnum og hugleiddi ásókn manna í ölvímu þegar hann fékk þá flugu í höfuðið að eldstæðin hlytu að vera brugghús.

Hinar meintu ölgerðir eru flestar frá því á bronsöld, og eru lang algengustu fornleifar á Írlandi, en vitað er um að minnsta kosti 4500 eintök.

Þær samanstanda af hrúgu af steinum, eldstæði til að hita steinana, og tré eða steinklæddri holu, sem var fyllt af vatni sem var hitað með glóandi steinunum.

Hann og félagi hans Decclan Moore fylltu viðarbala af vatni, hituðu það með glóandi steinum og bættu út í það byggi og villtum jurtum. Vökvann létu þeir gerjast í þrjá daga, og var hann þá orðinn að fínasta öli.

Nánar verður greint frá rannsóknum mannanna í tímaritiun Archeology Ireland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×