Erlent

Bandaríkjamenn kanna tilkall til norðurskautsins

Kanadískt herskip á æfingu á norðurskautssvæðinu.
Kanadískt herskip á æfingu á norðurskautssvæðinu. MYND/AFP

Skip á vegum bandarísku strandgæslunnar er nú á leið í rannsóknarleiðangur á norðurskautið til að kortleggja sjávarbotninn fyrir norðan Alaska. Markmið leiðangursins er að athuga hvort hluti norðurskautsins megi teljast vera bandarískt landsvæði. Bandaríkjamenn neita því hins vegar að ferðin tengist vaxandi samkeppni þjóða um yfirráð yfir Norðurpólnum.

Skipið mun kortleggja landgrunninn fyrir norðan Alaska allt að 805 kílómetra norður. Þetta er í þriðja skipti síðan árið 2003 sem leiðangur af þessu tagi er farinn.

Svo virðist sem kapphlaup sé hafið um Norðurpólinn. Danir, Kanadamenn og Rússar hafa allir gripið til aðgerða til að styrkja tilkall sitt til heimskautasvæðisins, þar sem eru mikilvægar siglingaleiðir og gnótt af olíu og gasi.

Bandaríkjamenn hafa hins vegar neitað því að leiðangurinn tengist vaxandi samkeppni um yfirráð yfir Norðurpólnum. Benda þeir á að leiðangurinn hafi verið skipulagður fyrir þremur árum og að hann sé aðeins hluti af langtímaáætlun um kortlagningu landgrunnsins fyrir norðan Alaska.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×