Erlent

Nautgripaflutningar bannaðir vegna Gin- og klaufaveiki

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar

Yfirvöld í Bretlandi hafa bannað allan flutning á búfénaði í kjölfar þess að gin og klaufaveiki greindist á bóndabæ nærri Guildford í Surrey fyrir utan London. Um 60 dýr reyndust smituð af sjúkdómnum, sem olli mikilli skelfingu í Bretlandi árið 2001.



Samkvæmt lögum verður öllum nautgripum á bænum slátrað og bændum um allt land er bent á að fylgjast vel með gripum sínum og tilkynna yfirvöldum það umsvifalaust ef grunur vaknar um smit.

Á bilinu 6 og hálf til tíu milljónir nautgripa voru felldir í faraldrinu árið 2001. Hann er talinn hafa kostað um átta og hálfa milljón punda.



Gordon Brown forsætisráðherra Breta snýr heim úr sumarfríi á morgun til að funda með almannavarnanefnd Bretlands um málið.



Sjúkdómurinn er töluvert hættulegri ferfætlingum en mönnum. Örfá tilfelli hafa greinst í mönnum, það síðasta árið 1966. Þó getur hann haft háalvarlegar afleiðingar fyrir landbúnað, og ferðamennsku, en árið 2001 var stórum svæðum lokað fyrir umferð til að reyna að hemja smitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×