Erlent

Belgíska lögreglan leitar manns vegna hvarfs Madeleine

Sighvatur Jónsson skrifar
Belgíska lögreglan hefur dreift teikningu af manni sem talinn er hafa verið í fylgd með Madeleine McCann á veitingastað í landinu á laugardag. Barnasálfræðingur taldi manninn og konu sem með honum var hegða sér grunsamlega og taldi stúlkubarn í fylgd þeirra líkjast Madeleine, sem leitað hefur verið að í þrjá mánuði.

Maðurinn var ásamt konu á þrítugsaldri og ungri stúlku á veitingastaðnum. Einum viðskiptavina staðarins fannst stúlkan sláandi lík hinni fjögurra ára Madeleine, sem hvarf af hótelherbergi í Portúgal meðan foreldrar hennar voru úti að borða. Þjónustustúlka á veitingastaðnum kallaði til lögreglu, sem tók glasið sem stúlkan hafði drukkið úr, til rannsóknar. Maðurinn er sagður vera dökkhærður og um hundrað og áttatíu sentímetrar á hæð.

Foreldrar Madeleine dreifðu í dag myndum af henni í spænskum bæ nærri landamærum Portúgals, í þeirri von að verða einhvers vísari. Í dag eru þrír mánuðir frá því að Madeleine var rænt af hótelherbergi í Portúgal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×