Erlent

Ítölsk mamma kvartar yfir „litla" stráknum sínum

Mamman var orðin langþreytt á hegðunarvandamálum sonarins.
Mamman var orðin langþreytt á hegðunarvandamálum sonarins. MYND/Getty

Sikileysk móðir tók húslykilinn af syni sínum, skrúfaði fyrir vasapeningana hans og keyrði hann á lögreglustöð bæjarins þegar hann kom of seint heim eitt kvöldið. Þetta væri ekki frásögur færandi ef ekki væri fyrir þá staðreynd að „litli strákurinn" er á sjötugsaldri.

Konan segir í viðtali við staðarblaðið í bænum Caltagirone að hún sé orðin langþreytt á hegðunarvandamálum sonarins sem er 61 árs. „Sonur minn ber enga virðingu fyrir mér," sagði mamman. „Hann segir mér aldrei hvert hann fer á kvöldin og kemur ekki heim fyrr en undir morgun. Hann er líka síkvartandi yfir matnum sem ég elda ofan í hann, þetta gengur ekki lengur," sagði konan, með grátstafinn í kverkunum.

„Strákurinn" svaraði mömmu sinni hins vegar fullum hálsi og sagði hana vera ómögulegan kokk og að vasapeningarnir væru engan veginn fullnægjandi. Lögreglan leysti úr heimiliserjunum á endanum og snéru mæðginin heim sátt með málalok, strákurinn með húslyklana í vasanum og pening í veskinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×