Erlent

Rússar reyna að eigna sér svæði undir norðurpólnum

Rússar urðu í dag fyrstir til að komast á kafbáti á hafsbotninn undir norðurpólnum. Tilgangur ferðarinnar var að eigna sér svæðið, en þar er möguleiki á að finna bæði olíu og gas. Utanríkisráðherra Kanada finnst lítið til ferðarinnar koma.

Tveir kafbátar voru sendir niður en í hvorum bátnum voru þriggja manna áhafnir. Kafbátarnir fóru á tæplega fjögurþúsund og þrjú hundruð metra dýpi.

Skilin voru eftir títanhylki á botninum sem innihéldu rússneska fánann. Með því að skilja hylkin eftir vildu Rússar sýna fram á að svæðið tilheyrði þeim. Svæðið er utan tvö hundruð mílna efnahagslögsögu Rússa. Ef þeir færa lögsöguna lengra út og inn á svæðið þá eiga þeir þá olíu og það gas sem þar kunna að finnast.

Utanríkisráðherra Kanada finnst lítið til leiðangursins koma en efnahagslögsaga Kanada liggur einnig að norðurheimskautinu. Í viðtali við fjölmiðla í dag sagði hann aðferðirnar fornaldarlega. Rússar yrðu að gera sér grein fyrir að nú sé 21. öldin en ekki sú fimmtánda. Í dag gætu þjóðir heimsins ekki farið um heiminn og eignað sér svæði. Slíkt væri óeðlileg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×