Erlent

Bjargaði lífi mæðgna

Íslenskur karlmaður bjargaði lífi mæðgna þegar brú yfir Mississippifljót í Minneapolis í Bandaríkjunum gaf sig á háannatíma í gærkvöldi. Tugir bíla voru á brúnni þegar hún brast og myndaðist skelfingarástand þegar fólkið reyndi að koma sér úr bílum sínum og synda í land.

Á hverju degi aka yfir tvö hundruð þúsund bílar yfir brúna. Á háannatíma í gærkvöldi gaf brúin sig hundrað og sextíu metra langur kafli hennar steypist í fljótið. Tugir bíla voru á brúnni þegar hún hrundi margir þeirra í sjóinn eða festust undir rústum brúarinnar.

Litlu munaði að Íslendingur, Einar Guðjónsson sem býr í Minneapolis ásamt fjölskyldu sinni, væri á sjálfri brúnni þegar hún gaf sig. Sjónarvottar segja ástandið á vettvangi vægast sagt hafa verið hræðilegt. Ökutæki hafi flotið um í ánni og skelfing hafi gripið marga sem reyndu að koma sér úr bílum sínum í sjónum og synda í land.

Einar tók þátt í björgunaraðgerðum og tókst honum ásamt tveimur öðrum að bjarga mæðgum úr vatninu.

Staðfest er að minnsta kosti fjórir séu látnir og hátt í þrjátíu manns saknað. Reuters fréttastofan hefur eftir lögreglustjóra borgarinnar að enn fleiri hafi fundist látnir á slysstað en hann vildi þó ekki staðfesta hversu margir. Miklir straumar eru á þessum stað í ánni og því alls kostar óvíst hvort allir þeir sem saknað er komi nokkurn tíman í leitirnar.

Unnið hafði verið að endurbótum á brúnni undanfarið sem var byggð fyrir fjörtíu árum. Brúin var átta akreina og ein af mikilvægustu umferðaræðum borgarinnar.

Ekki er vitað hvað olli slysinu en hún var byggð fyrir fjörtíu árum og var skoðuð á síðasta ári. Heimavarnarstofnun Bandaríkjanna hefur lýst því yfir að hún telji að ekki hafi verið um hryðjuverk að ræða. Bush Bandaríkjaforseti sagði í dag borgarbúa fá aðstoð við að takast á við erfiðleikana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×