Erlent

Lögreglustjóri Lundúna hreinsaður af ásökunum

MYND/GETTY

Lögreglustjóri Lundúna, Ian Blair, hefur verið hreinsaður af ásökunum um að hafa logið að almenningi í tengslum við dauða Brasilíumannsins Jean Charles de Menezes. De Menezes var skotinn til bana af lögreglumönnum sem grunuðu hann um hryðjuverk. Lögregla borgarinnar hefur verið ásökuð um að villa um fyrir almenningi eftir að í ljós kom að maðurinn tengdist ekki hryðjuverkum á nokkurn hátt.

Hálfum mánuði áður höfðu íslamistar sprengt sprengjur í Lundúnum sem urðu 52 að bana daginn áður höfðu svipaðar árásir mistekist. Í skýrslu sem kom út í dag kemur fram að undirmenn lögreglustjórans hafi ekki skýrt honum frá málavöxtum á fullnægjandi hátt. Skýrslan kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að aðstoðarlögreglustjórinn Andy Hayman hafi villt um fyrir almenningi.

„Ásakanir í garð lögreglustjórans eiga ekki við rök að styðjast og það er ekkert sem bendir til þess að hann hafi gerst brotlegur í starfi," segir í skýrslunni. De Menezes var skotinn sjö skotum í höfuðið í þann mund sem hann var að stíga um borð í neðanjarðarlest í Lundúnum en lögreglumennirnir héldu að hann væri Hussein Osman, einn þeirra fjögurra sem nýverið voru dæmdir fyrir að skipuleggja misheppnuðu árásirnar daginn áður.

Í skýrslunni er greint frá því að aðstoðarlögreglustjórinn Hayman, hafi skýrt blaðamönnum frá því strax síðdegis daginn sem de Menezes var skotinn, að hann væri ekki einn þeirra sem grunaðir væru í málinu. Seinna um kvöldið gaf hann hins vegar leyfi fyrir því að tilkynning var send út til fjölmiðla þar sem sagt var að enn væri ekki vitað hvort de Menezes tengdist hryðjuverkamönnunum. Blair hefur sagt að hann hafi ekki fengið upplýsingar um að lögregla hafi skotið rangan mann fyrr en sólarhringur hafði liðið frá atvikinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×