Erlent

Afganar segja þýsku gíslana á lífi

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Utanríkisráðherra Afghanistan segir ekki rétt að talibanar hafi tekið tvo þýska gísla af lífi. Annar hafi látist úr hjartaáfalli, en hinn sé enn lifandi. Mannræningjarnir tóku 23 aðila í gíslingu í vikunni og hótuðu að taka þá alla af lífi í dag ef talibönum í afgönskum fangelsum yrði ekki sleppt og þjóðirnar tvær drægju ekki herlið sitt til baka frá Afghanistan.

Talibanar rændu tveimur Þjóðverjum í Wardakhéraði á miðvikudag. Á fimmtudag rændu þeir síðan 18 Suður-Kóreumönnum úr rútu sem var á leið frá Kabul til Kandahar í suðurhluta landsins. Í hópnum eru í það minnsta 15 konur.

Í hljóðupptöku kröfðust mannræningjarnir þess að talibönum í afgönskum fangelsum yrði sleppt og að rúmlega þrjú þúsund manna herlið Þjóðverja og tvö hundruð Suður-Kóreumanna yrði kallað frá Afghanistan. Í sömu hljóðupptöku sögðust Talibanarnir hafa tekið tvo þýska gísla af lífi þar sem ekki hefði orðið við kröfum þeirra.

Sultan Ahmad Baheen talsmaður utanríkisráðuneytisins í Afghanistan segir öryggissveitir hafa komist að því að yfirlýsingar talibana um dráp á þýskum gíslum séu ekki réttar. Annar hafi látist úr hjartaáfalli og hinn sé enn á lífi.

Talibanarnir segjast munu drepa alla gíslana ef reynt verði að frelsa þá.

Á síðasta ári tilkynntu stjórnvöld í Seoul að 200 hermenn þeirra í Afghanistan yrðu fluttir heim fyrir lok þessa árs. Um þrjú þúsund þýskir hermenn eru í friðsælasta hluta Afghanistan á vegum Nato.

Stjórnvöld í Seoul segjast reiðubúin til viðræðna við talibanana til að tryggja lausn fólksins. Fjölskyldur gíslanna hvetja til að hermennirnir verði sendir heim tafarlaust.

Roh Moo-hyun forseti Suður Kóreu hét þess í dag að gera allt sem í hans valdi stendur til að gíslunum verði sleppt sem fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×