Erlent

Tóku tvo þýska gísla af lífi

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Talibanar í Afghanistan greindu frá því í morgun að þeir hefðu tekið tvo þýska gísla af lífi úr hópi Þjóðverja og Suður-Kóreumanna sem þeir rændu á fimmtudag. Mannræningjarnir hótuðu því að taka hina gíslana af lífi fyrir hádegi í dag nema stjórnvöld í Suður-Kóreu og Þýskalandi fækki í herliði sínu í Afganistan.

Tölum um fjölda gíslanna ber ekki saman. Um er að ræða 18 Suður-Kóreumenn og að minnsta kosti fimm Þjóðverja. Í hópnum eru að minnsta kosti 15 konur.  Gíslunum var rænt úr rútu þar sem þeir ferðuðust um þjóðveg frá Kabul til Kandahar í suðurhluta landsins.

Talibanarnir kröfðust þess að Suður Kórea kallaði 200 hermenn til baka fyrir hádegi í dag, að öðrum kosti myndu þeir taka alla gíslana af lífi. Talsmaður mannræningjanna sagði að þýsku gíslarnir tveir hefðu verið teknir af lífi þar sem ekki hefði orðið við kröfum þeirra um að senda þrjú þúsund þýska hermenn frá Afganistan.

Hvorki þýskum, né afgönskum yfirvöldum hafði borist staðfesting á að gíslarnir tveir hefðu verið teknir af lífi. Utanríkisráðherra Suður Kóreu sagði að ekki hefði borist formleg ósk til stjórnvalda frá öfgamönnunum.

Stjórnvöld í Seoul segjast reiðubúin til viðræðna við talibanana til að tryggja lausn fólksins. Roh Moo-hyun forseti Suður Kóreu hét þess í dag að gera allt sem í hans valdi stendur til að gíslunum verði sleppt sem fyrst. Á síðasta ári tilkynntu stjórnvöld í Seoul að hermenn þeirra í Afghanistan yrðu fluttir heim fyrir lok þessa árs.



 

 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×