Erlent

Komið að ögurstund fyrir botni Miðjarðarhafs

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segist skynja það sterkt í Ísrael og Palestínu að komið sé að ögurstund í friðarmálum fyrir botni Miðjarðarhafs. Hún segir þjóðirnar í hlekkjum ótta vegna komandi kynslóða. Íslendingar eigi ekki að skorast undan því að taka sér hlutverk í friðarferlinu.

Tilfinningaþrungnum kvennafundi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra ásamt yfirmanni flóttamannahjálpar Palestínumanna og frammákonum í Ísrael og Palestínu lauk í eftirmiðdaginn í dag. Áður hafði hún heimsótt flóttamannabúðirnar í Aida utan við Betlehem, borg sem hún lýsir sem fangelsi. Hún segir ólýsanlegt að upplifa hvað konur óttist framtíð barna sinna.

Ingibjörg segir ekki hægt að ímynda sér aðstæður fólksins, nema vera á staðnum og kynnast því af eigin raun. Fólkið hafi lengi lifað í von um frið, von sem brást.

Margir hafi flutt aftur til Palestínu með góða menntun og von um betra líf eftir að Óslóarsamkomulagið var gert árið 1994, en það rann út í sandinn.

Formlegri dagskrá vinnuferðar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra til Ísrael og Palestínu lauk í dag. Á morgun heldur íslenski hópurinn til Jórdaníu og á sunnudag hittir Ingibjörg meðal annars utanríkisráðherra landsins. Vinnuferðinni til mið-Austurlanda lýkur á sunnudagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×