Enski boltinn

Flutningur í vændum hjá Everton?

Goodison Park, heimavöllur Everton
Goodison Park, heimavöllur Everton NordicPhotos/GettyImages

Framkvæmdastjóri enska knattspyrnufélagsins Everton segir að félaginu standi til boða tilboð aldarinnar til að byggja nýjan leikvöll sem staðsettur yrði í Kirkby, nokkuð fyrir utan Liverpoolborg. Leikvangurinn yrði að stórum hluta fjármagnaður af Tesco verslunarkeðjunni og tæki 50-55,000 manns í sæti.

Stuðningsmenn Everton hafa mætt þessum hugmyndum með nokkurri andstöðu, enda þykir mönnum vænt um gamla heimavöllinn Goodison Park. Hugmyndir eru uppi um að reisa völlinn jafnvel strax árið 2010, en þar hefur stjórn Everton fengið velyrði frá Tesco fyrir 50 milljónum punda til að aðstoða við bygginguna.

"Þetta er rosalegt tilboð - tilboð aldarinnar - og ég á ekki von á því að okkur eigi eftir að standa annað eins til boða í framtíðinni," sagði Keith Wyness framkvæmdastjóri félagsins. Hann segir að félagið þyrfti að setja sig í tiltölulega litlar skuldir ef af þessu ævintýri yrði, því líklega myndu safnast um 15 milljónir á því að selja Goodison Park og með því að selja nafnið á nýja leikvangnum í hendur styrktaraðila.

Málið mun fara fyrir 30,000 stuðningsmenn Everton á næstunni og þar verður væntanlega kosið um það hvort næsta skref verður tekið í málinu. Wyness segir að það geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir félagið ef það stækki ekki við sig.

"Við höfum enn ekki fundið vallarstæði annað en þetta og sannarlega ekki samning eins og þennan. Við myndum ekki skulda mikið eftir að framkvæmdum lyki og við myndum fá leikvang sem yrði miklu ódýrari en sambærilegir leikvangar sem reistir hafa verið undanfarið. Við getum ekki haldið áfram á Goodison, því þar fækkar áhorfendum og innkoman lækkar - þannig að það er engin varaáætlun í þessu sambandi. Menn verða að hafa peninga í kassanum til að vera samkeppnishæfir," sagði Wyness.

Stuðningsmenn Everton munu greiða atkvæði sitt í málinu í næsta mánuði og niðurstöðu er að vænta í lok ágúst. Hugmyndin að deila leikvangi með Liverpool hefur verið slegin út af borðinu og þegar hafa verið stofnuð samtök sem kalla sig "Höldum Everton í Liverpool". Ekki nóg með það heldur virðast íbúar Kirkby í jaðri Liverpool margir hverjir alls ekki hrifnir af þeirri hugmynd að hafa knattspyrnuleikvang á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×