Erlent

Alþjóðasamfélagið harmar ákvörðun Putins

Rússar hafa sagt sig úr samkomulagi sem takmarkar fjölda herdeilda og þungavopna á ýmsum stöðum í Evrópu. Vladimir Putin, forseti Rússlands, skrifaði undir lög þess efnis nú í morgun. Evrópusambandið, Bretar og Bandaríkjamenn segjast harma ákvörðun rússneska forsetans.

Ákvörðun Putins tekur gildi eftir fimm mánuði, eða 150 dögum eftir að hinir aðilarnir að samkomulaginu hafa verið látnir vita. Hann sagði sérstakar aðstæður er varða þjóðaröryggi vera ástæðu úrsagnarinnar.

Samkomulagið á að takmarka fjölda skriðdreka, þungavopna og herflugvéla í Evrópu. Rússar segja Evrópuþjóðir ekki vilja staðfesta nýja útgáfu þess, sem gerð var 1999, og tekur á breyttum öryggisaðstæðum í Evrópu eftir lok Kalda stríðsins. Viðræður við NATO í síðasta mánuði um málið skiluðu engum árangri.

Talsmaður NATO sagðist harma ákvörðun Rússa þar sem samkomulagið væri einn af hornsteinum öryggis Evrópu. Þá hefur Evrópusambandið lýst yfir áhyggjum sínum og Bandaríkjamenn sögðu hana skref í ranga átt. Ákvörðun Rússa á sér stað á sama tíma og samskiptum þeirra við Vesturlönd hefur hrakað. Fyrirhugað eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjanna í Austur-Evrópu er talin vera ein af meginástæðunum fyrir ákvörðun Putin. Rússar hafa hótað að beina eldflaugum sínum að evrópskum skotmörkum ef kerfið verður reist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×