Erlent

Live Earth hófst í nótt

Tónleikaröðin Live Earth, sem ætlað er að vekja athygli á loftslagsbreytingum, hófst í Tokyo í Japan og Sydney í Ástralíu í nótt. Helstu stórstjörnur í tónlistarheiminum koma fram á tónleikunum sem haldnir eru í níu borgum fram eftir degi og langt fram á kvöld.

Tónleikar verða haldnir í Jóhannesarborg, Sjanghæ, Hamborg, Lundúnum, Washington, New Jersey og Ríó. Meðal þeirra sem skemmta eru Madonna, Red Hot Chili Peppers og James Blunt. Byggt er á fyrirmynd Live Aid tónleikanna og talið að tveir milljarðar manna horfi á tónleikana sem sendir eru út beint í sjónvarpi um allan heim.

Það var Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, sem skipulagði atburðinn. Ekki eru þó allir jafn hrifnir og segja gagnrýnendur það hræsni að senda skemmtikrafta milli landa í flugi þegar skilaboðin séu að draga skuli úr mengandi útblæstri hvers konar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×