Enski boltinn

Slúðrið á Englandi í dag

AFP

Ensku slúðurblöðin eru full af góðum fréttum í dag eins og endranær og þar er m.a. að finna slúður um enska landsliðsmanninn Darren Bent hjá Charlton og að Chelsea og Arsenal séu að berjast um leikmann Valencia. Þá er sagt frá því að ensku landsliðsmennirnir sem giftu sig um helgina hafi allir tekið hlé frá hátíðarhöldunum til að sinna ákveðnu máli.

Chelsea og Arsenal eru að berjast um að fá til sín varnarmanninn Miguel frá Valencia en verðmiðinn á honum er sagður um 13 milljónir punda - Daily Telegraph. Sex félög í úrvalsdeildinni eru sögð á höttunum eftir Royston Drenthe hjá Feyenoord að mati Independent, en blaðið segir Sunderland og West Ham þar fremst í flokki.

Gareth Southgate er tilbúinn að lofa Alan Smith hjá Manchester United föstu sæti í byrjunarliði Middlesbrough ef hann fæst til að skipta um félag - Daily Star. Darren Bent hefur tilkynnt Liverpool og Tottenham að hann muni ganga til liðs við það félag sem gefi honum betri möguleika á að vinna sér sæti í enska landsliðinu - Daily Mirror.

West Ham er komið í baráttuna um framherjann David Nugent hjá Preston að mati The Sun. Þá hefur West Ham fengið þvert nei frá Blackburn í viðleitni sinni til að kaupa framherjann Benni McCarthy frá Blackburn - The Sun. Harry Redknapp, stjóri Portsmouth, vill ólmur fá til sín framherjann Fredi Kanoute frá Sevilla þar sem Kanu er í viðræðum við Ajax í Hollandi - The Sun.

Chelsea er sagt vilja gera samning við Kóreumanninn Lee Chun-Soo vegna þeirra gríðarlegu fjárhæða sem eru í boði vegna styrktarsamninga við leikmanninn í Suður-Kóreu - The Sun. Danski miðjumaðurinn Thomas Gravesen er við það að ganga í raðir Sheffield United fyrir 3 milljónir punda - Ýmsir. West Ham hefur neitað 3 milljón punda kauptilboði Birmingham í framherjann Marlon Harewood og hefur Steve Bruce verið tilkynnt að hann þurfi að borga 4,5 milljónir fyrir hann - Daily Express.

Eigendur Liverpool hafa lofað Rafa Benitez meiri peningum til að eyða til leikmannakaupa í sumar í kjölfar frétta af ólgu í herbúðum félagsins - Daily Mirror. Khalid Boulahrouz hjá Chelsea hefur verið orðaður við Sevilla á Spáni - Ýmsir.

Barcelona hefur í huga að bjóða Arsene Wenger að taka við þjálfun liðsins vegna þess að Frank Rijkaard er að hugsa um að hætta eftir að liðið vann ekki spænska titilinn í vetur - The Sun. Alexei Lalas, framkvæmdastjóri LA Galaxy, segir að David Beckham verði stærra nafn í Bandaríkjunum en Tiger Woods og Michael Jordan eftir að hann gengur í raðir LA Galaxy - Daily Mirror.

David Beckham missti af hátíðarathöfn sem haldin var vegna meistaratitils Real Madrid því hann kaus að fljúga strax í sumarfrí með fjölskyldu sinni - Daily Star. Þeir John Terry, Gary Neville og Steven Gerrard ákváðu allir að taka sér hlé frá brúðkaupsáformum sínum um helgina til að senda félaga sínum David Beckham heillaóskir eftir að Real hampaði titlinum á Spáni - The Sun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×