Enski boltinn

10 verstu leikmannakaup í sögu úrvalsdeildarinnar

Juan Veron fagnar marki fyrir Manchester United
Juan Veron fagnar marki fyrir Manchester United AFP
Breska blaðið Sun birtir í dag lista sinn yfir 10 verstu leikmannakaup í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Listinn er nokkuð áhugaverður og gaman að sjá hvernig nokkrir af færustu knattspyrnustjórum Englands hafa keypt köttinn í sekknum.

Massimo Taibi - Manchester United

Ítalski markvörðurinn Taibi var keyptur til United frá Venezia fyrir 4,4 milljónir punda til að fylla skarð Peter Schmeichel. Hann spilaði hinsvegar aðeins fjóra leiki fyrir liðið og þótti afleitur markvörður. Hans er helst minnst fyrir markið sem hann fékk á sig gegn Matt Le Tissier þar sem boltinn rann í gegn um klofið á honum. Eftir það var hann kallaður "Blindi Feneyingurinn." Taibi spilar enn á Ítalíu og leikur með Torino.



Roque Junior - Leeds


Junior kom til Leeds eftir að hafa orðið heimsmeistari með Brasilíumönnum og átti heldur betur að stoppa upp í vörn Leeds-manna. Hann var fenginn til liðsins á lánssamningi til eins árs og fékk 1,2 milljónir punda fyrir að vera aðeins fimm sinnum í byrjunarliði liðsins. Hann spilar nú með Bayern Leverkusen og á fyrirtæki sem hannar föt á börn.



Per Kroldrup - Everton


Daninn Kroldrup var í miklu uppáhaldi hjá David Moyes knattspyrnustjóra Everton en byrjaði aðeins einn leik fyrir liðið, sem var 4-0 tap fyrir Aston Villa. Kroldrup spilaði aðeins 147 mínútur í úrvalsdeildinni og kostaði Everton því 13,600 pund á mínútu. Hann var síðar seldur til Fiorentina aðeins hálfu ári eftir komu sína til Englands.



Marcelino - Newcastle


Þessi spænski varnarmaður var keyptur til liðsins fyrir 5,8 milljónir punda frá Mallorca og hafði staðið sig vel gegn bestu framherjum Spánar. Ruud Gullit var stjóri Newcastle á þeim tíma og skildu stuðningsmenn liðsins aldrei hvað Gullit sá við leikmanninn. Hann féll svo endanlega úr náðinni hjá liðinu þegar hann neitaði að spila í margar vikur vegna fingurbrots.



Winston Bogarde - Chelsea


Bogarde átti ótrúlegan feril hjá Chelsea þar sem hann fékk fjögurra ára samning og 40,000 pund í vikulaun. Hann byrjaði afleitlega með liðinu og náði sér aldrei á strik eftir það. Chelsea gerði allt sem það gat til að losa sig við leikmanninn, en hann neitaði einfaldlega að fara frá félaginu. Bogarde hafði áður leikið með Milan, Ajax og Barcelona. Hann sætti sig við það skrítna hlutskipti að æfa með unglingaliði félagsins eftir að hafa verið settur út í kuldann - en hann gaf sig ekki og kláraði samninginn. Hann lagði síðar skóna á hilluna sem ríkur maður - og gaf út bók um allt saman sem er hinn skemmtilegasti lestur.



Juan Sebastian Veron - Manchester United


Manchester United greiddi Lazio 28 milljónir punda fyrir miðjumanninn snjalla frá Argentínu á sínum tíma og það var ekki lítil upphæð á þeim tíma. Miklar vonir voru bundnar við Veron á Englandi en hann náði aldrei að aðlagast knattspyrnunni þar í landi.

Kleberson - Manchester United

Kleberson er dæmi um annan Brasilíumann sem ekki náði að sanna sig í enska boltanum eftir að hafa unnið heimsmeistarakeppnina með landsliði sínu. Kleberson átti í rauninni að vera eftirmaður Veron hjá United þegar hann gekk í raðir liðsins fyrir 6 milljónir punda, en líkt og félaga hans Eric Djemba-Djemba - var för þeirra frá félaginu fagnað meira en komu þeirra.

Ali Dia - Southampton

Dia var fenginn til Southampton af Graeme Souness þegar hann var knattspyrnustjóri liðsins og eru þessi kaup einhver þau fáránlegustu í sögu úrvalsdeildarinnar. Svikahrappur taldi Souness trú um að Dia væri landsliðsmaður Senegal og frábær knattspyrnumaður, en fljótlega kom í ljós að það var haugalygi. Dia kom inn sem varamaður í leik gegn Leeds, en var svo arfaslakur að honum var síðar skipt af velli í sama leik. Hann fékk strax að taka pokann sinn og spilaði síðast fyrir lið Gateshead í utandeildinni.



Tomas Brolin - Leeds


Sænska stjarnan Brolin gerði fína hluti með landsliði Svía og Parma á Ítalíu og Leeds keypti hann á sínum tíma fyrir 4,5 milljónir punda. Fljótlega kom þó í ljós að Brolin hafði skilið allt sitt eftir á Ítalíu og gerði lítið annað en að bæta á sig kílóum á Englandi. Hann fór fljótlega frá Leeds og gerðist sölumaður með varahluti í ryksugur eftir að ferli hans sem knattspyrnumaður lauk.

Marco Boogers - West Ham

Boogers var keyptur til West Ham frá Sparta Rotterdam fyrir 1 milljón punda á sínum tíma og var rekinn af velli fyrir ljóta tæklingu á Gary Neville í aðeins sínum öðrum leik á Englandi. Hann týndist síðar og fannst síðar í hjólhýsagarði í Hollandi þar sem hann hafði fengið taugaáfall. Harry Redknapp viðurkenndi síðar að hann hefði keypt leikmanninn eftir það eitt að hafa séð myndbandsspólu með honum. Leikmaðurinn, með þetta skemmtilega nafn, náði sér síðar á strik og fór aftur að spila á fullu í heimalandinu.



Alberto Luque - Newcastle


Enn ein skrautfjöðurin í hatt Graeme Souness. Þessi spænski markaskorari átti að verða bjargvættur Newcastle þegar hann gekk í raðir liðsins fyrir hvorki meira né minna en 9,5 milljónir punda fyrir tveimur árum. Stuðningsmenn Newcastle urðu þó fljótt þreyttir á sífelldum meiðslum hans og væli og var hann síðast sem lánsmaður hjá PSV Eindhoven í Hollandi. Luque skoraði aðeins tvö mörk fyrir Newcastle.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×