Enski boltinn

Slúðrið á Englandi í dag

Nicolas Anelka
Nicolas Anelka NordicPhotos/GettyImages

Bresku slúðurblöðin eru full af safaríkum sögum í dag eins og venjulega, en mikið hefur verið um að vera á leikmannamarkaðnum undanfarna daga. Að venju eru stórliðin á Englandi orðuð við fjölda leikmanna.

Chelsea er að reyna að fá til sín bakvörðinn Daniel Alves frá Sevilla, en hann hefur einnig verið orðaður við Liverpool - The Sun. Inter Milan hefur áhuga á að skipta Brasilíumanninum Adriano fyrir Andriy Shevchenko hjá Chelsea - Mirror.

Alan Smith vill ólmur vera áfram hjá Manchester United og berjast þar fyrir sæti sínu þó hann hafi m.a. verið orðaður við Tottenham - The Sun. Sir Alex Ferguson er þó sagður vilja hlusta á kauptilboð í Smith - The Star. Sunderland mun ætla að bjóða í danska miðjumanninn Thomas Gravesen, en Reading hefur einnig áhuga á honum - Daily Star.

Framherjinn Lomana Lua Lua hjá Portsmouth hefur verið orðaður við Espanyol á Spáni og ku hafa áhuga á að spila þar í landi, en hann hefur einnig verið orðaður við lið í Abu Dhabi -The Times. Chelsea er til í að selja Khalid Boulahrouz til Bayern Munchen - The Times.

Miðjumaðurinn Xavi hjá Barcelona segist ekki í nokkrum vafa um að Thierry Henry gangi í raðir Barcelona í sumar - Daily Mirror. Fulham hefur gert 2 milljón punda kauptilboð í framherjann Walter Panidiani hjá Espanyol - The Sun.

Bolton mun aðeins leyfa Nicholas Anelka að ganga í raðir Manchester United ef liðið nær að landa Djibril Cisse frá Liverpool fyrir minna en 6 milljónir punda. Cisse er lánsmaður hjá Marseille í heimalandi sínu Frakklandi. -Mirror.

Miðjumaðurinn Claude Makelele hjá Chelsea er sagður hafa áhuga á að ganga til liðs við félag í amerísku MLS deildinni þar sem framtíð hans á Englandi er óráðin - Telegraph. Steven Gerrard spáir því að félagi hans Frank Lampard eigi eftir að skora stórkostlegt mark með landsliðinu fljótlega til að troða upp í þá sem hafa gagnrýnt hann fyrir að skora lítið - The Sun.

Miðjumaðurinn Kieron Dyer mun spila stöðu hægri bakvarðar í leik Englendinga og Eista annað kvöld. Steve McClaren mun stilla upp sama liði í þeim leik og í æfingaleiknum við Brasilíumenn um helgina -Guardian.

Claudio Ranieri segir að Manchester City hafi dregið lappirnar við það að ganga frá ráðningu sinni og því hafi hann ákveðið að taka við Juventus - The Sun. Norski framherjinn Ole Gunnar Solskjær meiddist lítillega með landsliðinu á dögunum og þarf að fara í aðgerð á hné sem þýðir að hann mun missa af undirbúningstímabilinu - Ýmsir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×