Erlent

Ákæra ellefu stríðsmenn fyrir hryðjuverk í Nahr el-Bared

MYND/AP

Líbönsk stjórnvöld gáfu í dag út ákæru á hendur ellefu félögum í samtökunum Fatah al-Islam fyrir hryðjuverkastarfsemi en samtökin hafa tekist á við líbanska herinn í palestínsku flóttamannabúðunum Nahr al-Bared í Trípóli. Átök héldu áfram í búðunum í nótt.

Reuters-fréttastofan hefur eftir heimildarmönnum úr dómskerfi Líbanons að um að tíu mannanna sem ákærðir eru séu Líbanar en sá ellefti er Sýrlendingur. Þeir eiga allir yfir höfði sér dauðarefsingu ef þeir verða sakfelldir.

Nærri 80 manns hafa fallið í Nahr al-Bared þær tæpu tvær vikur sem átök hafa staðið á milli Fatah al-Islam og líbanska hersins. Átökin, sem eru þau mestu í landinu í yfir 17 ár, héldu áfram í nótt en engar fregnir hafa borist af mannfalli.

Líbanska ríkisstjórn krefst þess að uppreisnarmennirnir, sem sagðir eru tengjast al-Qaida samtökunum, gefist upp en þeir segjast einungis vera að verja hendur sínar og neita að láta undan kröfum yfirvalda.

Yfir 25 þúsund manns eða yfir helmingur íbúa í flóttamannabúðunum hefur flúið þær og leitað skjóls í nærliggjandi búðum þar sem hjálparstofnanir hafa veitt þeim aðstoð. Þá er einnig reynt að koma íbúum sem enn eru í Nahr el-Bared til aðstoðar en þar er bæði rafmagns- og vatnslaust að sögn vitna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×