Erlent

Demókrataflokkur Taílands sýknaður af ákæru um kosningasvik

Björn Gíslason skrifar
Stuðningsmenn Demókrataflokksins fagna niðurstöðu stjórnarskrárdómstólsins í morgun.
Stuðningsmenn Demókrataflokksins fagna niðurstöðu stjórnarskrárdómstólsins í morgun. MYND/AP

Stjórnarskrárdómstóll í Taílandi sýknaði í morgun Demókrataflokk landsins af ákæru um að hafa haft rangt við í kosningum í apríl 2006. Hefði dómstóllinn sakfellt flokkinn hefði hann hugsanlega verið útilokaður frá stjórnmálum og sömuleiðis fjöldi flokksmanna.

Kosningarnar sem um ræðir voru mjög umdeildar en það var stjórnarflokkurinn Thai Rak Thai með fyrrverandi forsætisráðherrann Thaksin Shinawatra í broddi fylkingar sem boðaði til þeirra með skömmum fyrirvara. Demókrataflokkurinn sniðgekk þær og í kjölfarið gengu ásakanir á milli flokkanna um kosningasvik.

Kosningarnar voru svo ógiltar og eftir margra vikna deilur hrakti herinn Shinawatra frá völdum og tók við stjórn landsins.

Ákæran um kosningasvik sneri líka að Thai Rak Thai en stjórnarskrárdómstóllinn kveður upp úrskurð varðandi hann síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×