Erlent

Peres tilkynnir formlega um framboð sitt

Shimon Peres.
Shimon Peres. MYND/AP

Shimon Peres, varaforsætisráðherra Ísraels, tilkynnti í morgun formlega að hann hygðist bjóða sig fram til forseta landsins. Það er Knesset, ísraelska þingið, sem velur nýjan forseta í stað Moshes Katsavs þann 13. júní næstkomandi.

Mjög hafði verið þrýst á Peres að bjóða sig fram í embættið en hann er einn af reyndari stjórnmálamönnum Ísraels og hefur meðal annars gegnt starfi forsætisráðherra. Peres er 83 ára og meðal annars handhafi friðarverðlauna Nóbels.

Peres sagði í morgun að hvatning fjölmargra, þó fyrst og fremst forsætisráðherrans Ehuds Olmerts, hefði ráðið því að hann ákvað að gefa kost á sér. Hann verður forsetaframbjóðandi Kadima-flokksins en búist er við að hann fái harðasta samkeppni frá frambjóðanda Likud-bandalagsins, Reuven Rivlin.

Peres bauð sig fram til forsetaembættisins árið 2000, þá fyrir Verkamannaflokkinn, en tapaði fyrir Moshe Katsav. Kjörtímabili Katsavs lýkur í lok júlí en þá er búist við að hann verði ákærður fyrir að hafa nauðgað og áreitt kynferðislega konur sem voru í starfsliði hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×